Blóðvökvi (plasma) inniheldur 3 mismunandi frumur:
- Hvít blóðkorn sem eru hluti af ónæmiskerfi líkamans og aðstoða hann við að verjast sýkingum.
- Rauð blóðkorn sjá um að flytja súrefni með aðstoð blóðrauða (haemoglobin).
- Blóðflögur aðstoða svo við blóðstorknun.
Blóðleysi (anaemia) felur í sér skort á rauðum blóðkornum. Rauðu blóðkornin ferðast um líkamann eftir æðunum, vinna súrefni í lungunum og skila því til frumna líkamans. Frumurnar nota súrefnið til brennslu sem gefur okkur orku. Úrgangsefni brennslunnar er koldíoxíð (CO2 ) sem binst rauðu blóðkornunum sem hafa skilað súrefninu til frumnanna. Koldíoxíð flyst til lungnanna þar sem því er skilað út með öndun. Ef rauðu blóðkornin eru of fá eða starfa ekki sem skyldi koma fram einkenni súrefnisskorts, t.d. þreyta og slappleiki. Blóðleysi verður yfirleitt vegna minnkaðrar framleiðslu rauðra blóðkorna og/eða vegna óeðlilega mikils taps á þeim. Þannig er talað er um að við séum „blóðlaus“(anaemic) eða með járnskort þegar fjöldi rauðu blóðkornanna er of lítill eða styrkur blóðrauða er of lítill í blóði. Rauðu blóðkornin eru framleidd í beinmerg og lifa í u.þ.b. 4 mánuði. Mikið magn (milljónir) af nýjum frumum eru framleiddar á degi hverjum til að koma í stað þeirra sem eyðast. Til framleiðslunnar þarf m.a. járn, B12 vítamín og fólínsýru. Ef eitthvert þessara efna vantar eða er í of litlum mæli í líkamanum minnkar framleiðsla rauðu blóðkornanna með tímanum og einkenni blóðleysis koma fram. Það eru til nokkrar ástæður blóðleysis en algengast er þegar um járnskort (iron deficiency) er að ræða. Járn gegnir lykilhlutverki í blóðrauða. Blóðrauði sér um að geyma og flytja súrefni í rauðu blókornunum. Ef það er skortur á járni í blóði getur líkaminn ekki flutt eins mikið súrefni til vefjanna eins og þeir eru vanir að fá. Ef skortur er á járni í líkamanum geta einkenni frá slímhúð í munni og kverkum bæst við almenn einkenni blóðleysis.
Hverjir eru útsettir?
- Ungabörn, einkum þau sem eru fædd fyrir tímann, geta þjáðst af járnskorti fyrst um sinn vegna þess að járnbirgðirnar eru ekki nægar, en þær byggjast upp á mánuðunum fyrir fæðingu.
- Þungaðar konur þurfa að auka neyslu á járnríkri fæðu vegna meðgöngunnar. Aukin þörf verður fyrir járn vegna aukinna frumuskiptinga þegar fóstrið vex. Það er ekki óalgengt að konur þurfi járntöflur til viðbótar fæðunni á meðgöngu, sérstaklega eftir 20.viku. Þungaðar konur með alvarlegan járnskort eru líklegri til að lenda í vandamálum í eða eftir fæðingu. Rannsóknir hafa sýnt að börn mæðra með járnskort eru líklegri til að fæðast fyrir tímann eða vera léttburar og eru þannig útsettari fyrir frekari vandamálum.
- Blæðingar kvenna er algengasta orsök járnskorts hjá konum á barneignaraldri. Venjulega á þetta við um konur sem hafa miklar blæðingar þannig að blóðtapið er verulegt og líkaminn nær ekki að bæta sér þetta tap upp án aðstoðar.
Blóðleysi vegna undirliggjandi sjúkdóma
Blæðing í meltingarvegi er algengasta orsök járnskorts hjá karlmönnum og konum eftir breytingarskeið. Nokkrar helstu orsakir fyrir slíkri blæðingu eru:
- Bólgueyðandi lyf án stera (Non-steroidal anti-inflammatory drugs (NSAIDs). Þessi lyf eru til dæmis lyf eins og Íbúprófen, Naproxen og Voltaren. Ef þau eru notuð í lengri tíma og í miklu magni geta þau stundum orsakað blæðingar í meltingarfærum. Ef grunur leikur á að um blæðingu vegna þessara lyfja sé að ræða þarf að hætta töku þeirra og fá önnur í staðinn. Þetta er best að gera í samráði við lækni.
- Magasár. Blætt getur úr magasári en oft verður viðkomandi ekki var við blæðinguna því hún gerist gjarnan hægt. Ef blæðir lengi án þess að einkenna verði vart getur það valdið blóðleysi. Stundum er hægt að sjá blóð með hægðum eða viðkomandi fær í alvarlegri tilfellum blóðug uppköst.
- Minnkuð upptaka frá meltingarvegi. Smáþarmasjúkdómar geta orsakað minnkaða upptöku næringarefna frá smáþörmum, t.d. glútenóþol (Coeliak sjúkdómur) eða svæðisgarnabólga (Crohns sjúkdómur)
Hver eru helstu einkenni blóðleysis?
- Hjá konum telst eðlilegt blóðrauðagildi vera 118-152 g/L en hjá körlum er það 134-171 g/L.
- Það er nokkuð einstaklingsbundið hvenær fólk fer að finna fyrir einkennum.
- Fyrstu einkennin eru þreyta, ör eða þungur hjartsláttur, andþyngsli og svimi. Þreyta og slappleiki er algeng kvörtun hjá þeim sem þjást af blóðleysi. Þegar vefirnir fá ekki nægt súrefni hefur það áhrif á starfssemi líkamans og hann hefur minni orku.
- Ef blóðleysi er mikið getur fólk fengið hjartverk, höfuðverk og verki í fætur við gang og áreynslu sem hverfa í hvíld.
- Rannsóknir hafa sýnt að blóðleysi hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið þannig að það er ekki jafnvel í stakk búið að ráða við sýkingar og umgangspestir
- Einkenni sem eru einkennandi fyrir langvarandi járnskort eru: Brunatilfinning í tungu, þurrkur í munni og kverkum og smá sár í munnvikum. Í sumum tilvikum verða neglur skrítnar og hrjúfar og hafa tilhneigingu til þess að rifna.
- Við járnskort getur viðkomandi orðið óeðlilega sólginn í ákveðnar matartegundir, t.d. vanilluís, frostpinna og lakkrís.
Hvað er hægt að gera til þess að forðast járnskort?
Það er best er að neyta fjölbreyttrar fæðu úr öllum fæðuflokkunum fjórum og auka neyslu á þeim járnríku. Ef það dugar ekki til getur verið nauðsyn að bæta við járntöflum. Mikilvægt er að nægt C vítamín sé í fæðunni til að líkaminn geti nýtt járnið. Dæmi um mat sem er ríkur af járni er:
- dökkgrænt grænmeti til dæmis spínat
- baunir,
- hnetur,
- rautt kjöt,
- aprikósur,
- sveskjur og rúsínur
- innmatur, s.s. lifur og slátur.
- lifrarkæfa
- ýmis járnbætt matvæli ( iron fortified)
- bætiefni. Gott getur verið að fá aðstoð næringarfræðings ef illa gengur að ná tökum á fæðunni.
Mikilvægt er fyrir konur á barneignaraldri að hafa augun opin fyrir því hvort járnþörfin verði meiri á ákveðnum tímabilum og mæta þeirri þörf.
Stundum er nauðsynlegt að taka lyf sem innihalda járn. Aukaverkanir geta verið af járntöflum eins og til dæmis kviðverkir og svartar hægðir. Best er að ræða við lækninn ef aukaverkana verður vart. Ekki hætta meðferð án samráðs við lækni. Eins þarf að gæta vel að því að geyma járntöflur þar sem börn ná ekki til vegna þess að of mikið járn getur verið hættulegt ungum börnum. Meðferð við járnskorti er venjulega afar árangursrík og yfirleitt verður enginn varanlegur skaði. Oft þarf að fylgjast með hvernig einstaklingurinn svarar meðferð með því að taka blóðprufu.
Greinin birtist 7.maí 2015 en hefur verið uppfærð
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar