Blöðrur á nýrum

Blöðrur á nýrum geta verið tvenns konar:

  • Stakar blöðrur
  • Meðfæddar blöðrur

Stakar blöðrur :

Eru fullar af vökva, enginn veit hvers vegna þær myndast, þær geta stækkað smám saman en valda sjaldan vandræðum. Þeim fylgja yfirleitt engin einkenni nema þær verði þeim mun stærri, en þá geta komið fram verkir í baki. Einnig geta blöðrurnar snert eða þrýst á önnur líffæri og þannig valdið verkjum eða óþægindum. Það er stundum hægt að greina mjúkan hnút með fingrunum ef blaðran verður mjög stór.

Stök blaðra uppgötvast yfirleitt vegna rannsóknar sem framkvæmd er vegna einhvers annars. Ef blaðra uppgötvast þarf að rannsaka blöðruna frekar með því að taka sýni úr henni til þess að sjá hvort í vökvanum séu krabbameinsfrumur, en í einstaka tilfellum getur myndast krabbamein í vegg þeirra.

Rannsóknin er gerð í staðdeyfingu og er sársaukalítil eða nánast sársaukalaus. Ef frumurnar í vökvanum eru eðlilegar þarf engar frekari rannsóknir.

Stakar góðkynja blöðrur hafa í sjálfu sér enga hættu í för með sér og því er engin meðferð við þeim. Ef blaðra verður svo stór að hún valdi sársauka eða ef hún reynist illkynja þarf væntanlega að nema brott nýrað eða einhvern hluta þess.

Meðfæddar blöðrur:

Myndast margar saman af mismunandi stærðum á báðum nýrum. Þær hegða sér afar misjafnlega, en enginn veit hvers vegna. Þær vaxa mishratt eftir einstaklingum, hratt hjá sumum en hægt eða nánast ekki neitt hjá öðrum. Meðfæddar blöðrur geta stafað af mörgum og mismunandi sjúkdómum, vaxi blöðrurnar hratt er það alvarlegt mál og í verstu tilfellunum geta þær útrýmt svo miklu af heilbrigðum nýrnavef að þær valdi nýrnabilun strax um fertugt. Þegar starfsemi nýrnanna fer að skerðast koma fram einkenni eins og þreyta og aukin tíðni þvagláta.

Ef blöðrurnar vaxa mikið geta þær orðið mjög stórar og snert eða þrýst á önnur líffæri og þannig valdið verkjum og óþægindum.

Fyrir kemur að blöðrurnar valdi blóðmigu (blóð í þvagi). Blóðmigan stafar aðallega af því að blöðrurnar springa og það getur verið mjög sársaukafullt, sérstaklega ef um stórar blöðrur er að ræða.

Líklegast er að meðfæddar blöðrur í nýrum uppgötvist fyrir tilviljun þegar verið er að rannsaka einstakling vegna einhvers annars sjúkdóms. Ef meðfæddar blöðrur uppgötvast hjá þér þarf að fylgjast með þér og þú þarft að láta nákomna ættingja vita svo þeir geti látið athuga sig. Ef þér er kunnugt um að nákomnir ættingjar hafi sjúkdóminn skaltu láta athuga þig, þín vegna og barnanna þinna. Margir af þessum blöðrusjúkdómum í nýrum eru arfgengir og því eru börn þessa fólks strax sem ungir krakkar undir ströngu eftirliti, og með misskerta nýrnastarfsemi, jafnvel mjög ung.

Uppgötvist blöðrurnar snemma, er með reglulegu eftirliti mögulegt að draga úr hægt vaxandi nýrnaskemmdum.

Hversu margir fá blöðrur á nýru?

Það er engin leið að meta það hversu margir fá eða hafa blöðrur á nýrum hvort sem um er að ræða stakar blöðrur eða meðfæddar. Fjölmargir hafa annað hvort án þess að hafa hugmynd um það. Blöðrurnar uppgötvast oft einungis vegna þess að nýrun eru rannsökuð af öðrum orsökum.

Hér er ýtarleg vefsíða á ensku, þar sem lesa má meira um þetta efni.

Grein þessi birtist  21.júlí 2003

 

Höfundur greinar