Efnisyfirlit
Hvað er félagsfælni og hvernig lýsir hún sér?
Félagsfælni má skilgreina sem yfirdrifinn, óraunhæfan, og þrálátan kvíða í tengslum við félagslegar aðstæður, þ.e. samskipti við annað fólk eða að framkvæma athafnir að öðrum viðstöddum. Kvíðinn veldur því að einstaklingurinn forðast meðvitað slíka félagslega þátttöku, finnur til mikils kvíða í aðstæðunum og/eða hefur kvíða við tilhugsunina eina. Þeir sem þjást af félagsfælni gera sér almennt grein fyrir að um óraunhæfan ótta er að ræða. Kvíðinn er það mikill að hann hefur hamlandi áhrif á daglegt líf einstaklingsins.
Í raun má skipta félagsfælni í tvennt. Annars vegar kvíða tengdan beinum mannlegum samskiptum og hins vegar kvíða tengdan framkvæmd athafna fyrir framan aðra. Margir sem hafa félagsfælni líða af báðum þessum þáttum, en einkum er líklegt að þeir sem þjást af „samskiptafælni“ þjáist einnig af „athafnafælni“.
Í grunninum er um sams konar hugsunarhátt að ræða í báðum tilvikum. Einstaklingurinn óttast neikvæða umfjöllun annarra, annaðhvort við bein samskipti eða við framkvæmd athafna fyrir framan aðra. Hann óttast að fá kvíðaeinkenni, sem aðrir muni greina, svo sem roða í andliti, svita eða skjálfta, hugurinn muni frjósa eða honum muni ekkert detta í hug til að segja. Hann er almennt viðkvæmur fyrir áliti annarra, óttast að verða fyrir neikvæðu mati og verða þar með dæmdur kvíðinn, veikgeðja, „heimskur“, „óspennandi“, og verða síðan hafnað.
Félagsfælni getur verið mjög mismunandi víðtæk. Hún getur náð yfir allt frá fáum aðstæðum upp í mjög víðtækar aðstæður, sem í raun veldur þá algjörri einangrun, þar sem einstaklingurinn fer helst ekki úr húsi.
Dæmigerðar „samskiptaaðstæður“ geta t.d. verið að hitta einhvern í fyrsta skipti, sækja samkomur eins og veislur eða fundi, vinna í hópi, fá gesti í heimsókn, tala í síma, skila hlutum í verslanir, hitta „yfirmenn“ eins og verkstjóra á vinnustað eða kennara.
Dæmi um „athafnaaðstæður“ geta t.d. verið að halda tölu í litlum eða stórum hópi, skrifa fyrir framan aðra, borða með öðrum, spila opinberlega á hljóðfæri, koma inn á fund þegar aðrir eru sestir, kasta af sér vatni á almenningssalernum eða vera hluti af íþróttaliði.
Almennt gera þeir sem þjást af félagsfælni sér grein fyrir því að um yfirdrifinn kvíða er að ræða. Þeir eru í raun reiðir út í sjálfa sig fyrir „að láta svona“. Þeir upplifa gjarnan kvíða fyrirfram við tilhugsunina eina saman, oft í langan tíma áður en skipulögð félagsleg samskipti munu eiga sér stað. Vanlíðan verður síðan veruleg þegar í aðstæðurnar er komið, eða viðkomandi kemur sér hjá þátttöku. Ekki er óalgengt að þeir sem þjást af félagsfælni komi sér upp „óæskilegum“ aðlögunarleiðum, svo sem að finna sér afsakanir til að koma sér hjá samskiptum eins og að „hafa svo mikið að gera“, eða fá aðra til að taka að sér það sem þeir fælast, en með því viðhalda þeir fælninni í raun.
Á hvaða aldri fara einkenni að gera vart við sig?
Félagsfælni kemur yfirleitt fram snemma á ævinni, oftast á aldrinum 11-15 ára, en sjaldan eftir 25 ára aldur. Einkennin hafa síðan tilhneigingu til að fara hægt og sígandi vaxandi og vinda upp á sig á ýmsan hátt.
Afleiðingar félagsfælni og tengsl við aðra geðsjúkdóma.
Afleiðingar félagsfælni geta orðið mjög alvarlegar. Sjúkdómurinn hefur tilhneigingu til að koma fram snemma á ævinni og veldur vangetu til félagslegra samskipta á þeim aldri. Því verða þessir einstaklingar gjarnan fyrir einelti. Þessi aldur er mjög mikilvægur í félagsþroska manna og fara þessir einstaklingar því mjög á mis við eðlilegan þroska. Tilhneiging er til félagslegrar einangrunar og viss hluti leitar síðan í áfengi og önnur vímuefni í viðleitni sinni til að ná tökum á kvíðanum og til að auka kjark í félagslegum samskiptum. Oft endar slík notkun í áfengis- og vímuefnasýki. Einstaklingar með félagsfælni hafa tilhneigingu til að flosna upp úr skóla, staldra stutt við á vinnustöðum og vera við störf sem eru langt undir þeirra getu, eða verða óstarfhæfir. Þeir ná oft ekki að stofna fjölskyldu, þrátt fyrir mikinn vilja. Þunglyndi gerir oft vart við sig hjá einstaklingum með félagsfælni, en einnig ýmsir aðrir geðrænir sjúkdómar. Þá er sjálfsvígshætta mjög aukin, einkum ef um aðra geðsjúkdóma er að ræða, eins og áfengis- og vímefnavandi, og þunglyndi.
Algengi.
Algengistölur frá ýmsum löndum fyrir félagsfælni eru mjög mismunandi eða allt frá 3% upp í 14%. Mismunurinn stafar af ólíkum rannsóknaraðferðum og breytingum á skilmerkjum á þessum sjúkdómi, sem tiltölulega nýlega er farið að rannsaka að ráði. Hvert sem algengið nákvæmlega er, er ljóst að félagsfælni er algengur sjúkdómur, mun algengari en almennt er haldið.
Meðferð.
Venjulega líður langur tími frá því að einstaklingur er kominn með veruleg einkenni um félagsfælni þar til hann leitar sér hjálpar. Tilhneiging er til, að einstaklingar með félagsfælni fái, án meðferðar, fleiri geðræna sjúkdóma með tímanum. Rannsóknir hafa sýnt að þegar þessir einstaklingar leita sér meðferðar er sjaldnast eingöngu um félagsfælni að ræða. Einstaklingar með félagsfælni upplifa ástand sitt gjarnan sem „aumingjaskap“ og skammast sín fyrir einkennin og eru viðkvæmir fyrir því að leita meðferðar vegna þeirra. Þeir hafa oft á tíðum „sætt sig við feimni“, hafa komið sér upp „óæskilegum“ aðlögunarleiðum, eru sjálfir haldnir fordómum eða telja að engin árangursrík meðferð sé til. Oft leita þeir meðferðar vegna annarra vandamála, eins og áfengisvandamála eða þunglyndis, en þá er brýnt að „grunnsjúkdómurinn“ komi einnig fram, svo að veita megi meðferð við honum samhliða.
Meðferð félagsfælni byggir á lyfjameðferð og/eða viðtalsmeðferð. Meta þarf í hverju tilviki hvaða leið er vænlegust til árangurs. Helstu lyf sem notuð eru til meðferðar á félagsfælni í dag eru þunglyndislyf sem einnig hafa verkun á ýmsa kvíðasjúkdóma. Undirritaður telur að samhliða lyfjameðferð séu a.m.k. leiðbeiningar til að takast á við fælniaðstæður nauðsynlegar. Viðtalsmeðferð byggir einkum á hugrænni atferlismeðferð, þar sem einstaklingurinn er útsettur með kerfisbundnum hætti í þær aðstæður sem hann óttast, og fær samhliða þjálfun í að breyta hugsunarhætti sínum og skynjunum.
Horfur.
Almennt teljast horfur góðar. Ýmsir þættir hafa þó áhrif þar á, m.a. alvarleiki einkenna, persónuleikagerð, og hvort áfengisvandamál séu til staðar.
Félagsfælni er útbreiddur, hamlandi, vangreindur, og undirmeðhöndlaður kvíðasjúkdómur.
fyrst birt á Doktor.is 9/8/2004
Höfundur greinar
Brjánn Bjarnason, geðlæknir
Allar færslur höfundar