Hvað er hlaupabóla?
Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur, sem er algengur hjá börnum. Sjúkdómurinn lýsir sér með bólum eða blettum á húð sem verða að nokkurs konar blöðrum og síðar sárum. Mikill kláði getur fylgt bólunum. Sjúkdómurinn er yfirleitt ekki hættulegur en getur í stöku tilfellum orðið alvarlegur. Hlaupabóla orsakast af veiru sem kallast varicella zoster (herpes zoster) sem einnig veldur sjúkdómnum ristli en þessi veira er skyld herpes simplex veirunni sem veldur frunsum.
Hver er orsökin?
Veiran smitast milli fólks með úðasmiti og/eða beinni snertingu, t.d. snerting við sprungnar blöðrur. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Veiran er til staðar í vessanum sem er inni í bólunum og því getur einstaklingur smitað meðan einhver vessi er enn til staðar. Meðgöngutími hlaupabólu þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni er 10-21 dagur.
Hver eru einkennin?
- Útbrot á búk og í andliti. Útbrotin berast síðan í hársvörð, handleggi og fætur. Þau geta einnig borist yfir á slímhúðir og kynfæri.
- Útbrotin valda kláða.
- Til að byrja með eru þetta litlar rauðar bólur, sem eftir nokkra klukkutíma verða að blöðrum. Blöðrurnar verða síðan að sárum á 1-2 dögum. Það myndast hrúður og þær þorna upp.
- Nýjar blöðrur geta myndast eftir 3-6 daga.
- Það er mjög mismunandi hversu margar blöðrur hver einstaklingur fær.
- Sjúkdómnum getur iðulega fylgt hiti.
- Börn verða yfirleitt lítið veik á meðan fullorðnir geta orðið mjög veikir.
- Slappleiki og hiti geta varað í einhvern tíma áður en bólurnar myndast.
- Önnur einkenni sem geta komið fram eru: höfuðverkur, lystarleysi og/eða særindi í hálsi.
Hverjir eru í áhættuhóp?
Þungaðar konur, sem hafa ekki fengið hlaupabólu og einstaklingar með veiklað ónæmiskerfi, þ.á.m. börn með hvítblæði eða börn sem eru á sterameðferð. Fyrirburar og ung börn, auk þess sem einstaklingar á ónæmisbælandi lyfjum geta orðið mjög veikir. Þeir sem eru í áhættuhóp og eru í smithættu geta látið bólusetja sig við veirunni.
Hvað er til ráða?
- Einstaklingur er smitandi þangað til að allar blöðrur eru orðnar að sárum og nýjar eru hættar að myndast. Því skal einstaklingur sem er smitaður halda sig heima við.
- Klippa skal neglur og/eða nota hanska.
- Gæta verður hreinlætis, ef þið hafið komið við blöðrurnar eða svæðin í kring er ráðlegt að þvo sér vel um hendur. Börn klóra gjarnan í blöðrurnar og geta því borið smit.
- Kaldur bakstur getur linað kláðann.
- Hiti og sviti valda kláða, því er gott að vera í svölu umhverfi. Sturta eða bað skolar svitann af og einstaklingum líður betur á eftir.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Sjúkdómsgreiningin er byggð á ofangreindum augljósum einkennum. Auk þess er hægt að greina veiruna með ræktun en þá er sýni tekið frá útbrotunum og í vafatilfellum er hægt að greina veiruna með blóðrannsókn.
Batahorfur
- Yfirleitt stafar engin hætta af hlaupabólu. Sjúkdómurinn varir í 7-10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Fullorðnir fá oftar fylgikvilla en börn en þeir eru hins vegar mjög sjaldgæfir.
- Sá sem hefur fengið hlaupabólu ætti ekki að fá hana aftur. Hins vegar getur veiran síðar valdið sjúkdómi sem heitir ristill (herpes zoster). Einstaklingur með ristil getur síðan smitað aðra af hlaupabólu.
Hvaða fylgikvillar geta komið í kjölfar hlaupabólu?
- Þvagfærasýkingar
- Bólga í augum
- Lungnabólga
- Í einstaka tilfellum getur hlaupabóla m.a. valdið heilabólgu og/eða hjartavöðvabólgu.
Hver er meðferðin?
Meðferðin felst helst í því að draga úr einkennum, drekka vel, draga úr kláða og halda kyrru fyrir. Hægt er að lina kláðann eins og greint var frá hér að ofan en einnig eru til lyf sem nota skal útvortis sem draga úr kláðanum. Einnig eru til staðdeyfikrem. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum í stuttan tíma og þegar þau eru notuð þarf að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund. Ef kláðinn verður svo mikill að svefn barnsins verður fyrir truflunum er hægt að gefa barninu kláðastillandi lyf, andhistamín, en þau geta þó haft sljóvgandi áhrif. Einnig er hægt að gefa hitalækkandi lyf en gæta þarf þess að þau innihaldi ekki aspirín. Hægt er að meðhöndla hlaupabólu með þar til gerðum veirulyfjum en hefja þarf þá meðferð á fyrstu dögum veikindanna. Sú meðferð á helst við hjá þeim einstaklingum sem eru í hættu á að fá alvarlegar sýkingar eða fylgikvilla hlaupabólu t.d. ónæmisbældir einstaklingar eða þeir sem umgangast ónæmisbælda einstaklinga.
Til er bóluefni við sjúkdómnum og hægt að fá nánari upplýsingar varðandi það á heilsugæslustöðvum.
Greinin var uppfærð 27.8.2020 af Særúnu Erlu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðingi.
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar