Kláðamaur

Kláðamaur (scabies) er sníkjudýr sem lifir í húð manna. Þetta er algengur húðsjúkdómur um allan heim sem getur smitast við kynmök.

Hvernig smitar maurinn?
Kláðamaur smitar við nána snertingu en einnig á annan hátt, svo sem ef sofið er í rúmi smitaðs einstaklings þar sem ekki hefur verið skipt um rúmföt eða notuð eru sömu handklæði. Afar ólíklegt er að smit geti átt sér stað þótt smitaður einstaklingur heilsi með handabandi, en ef haldist er lengi í hendur og húðin er heit og þvöl kemur maurinn fram á yfirborðið og getur smitað. Smit á klósettsetum er afar ólíklegt. Maurinn getur lifað í tvo til þrjá sólarhringa utan líkamans. Það tekur fjórar til sex vikur frá smitun þar til einkenni koma í ljós, hafi viðkomandi aldrei fengið kláðamaur, en hafi hann fengið kláðamaur áður geta einkenni komið fram eftir fáeina daga.

Hver eru einkenni af völdum kláðamaurs?
Kláðamaurinn veldur útbrotum og kláða. Útbrotin koma gjarnan á þá staði líkamans þar sem maurinn kann best við sig; milli fingra, á úlnliðum, í mittinu, á baki og kringum kynfærin. Afar óvenjulegt er að maurinn komi í andlit. Kláðinn er oft mestur á nóttinni undir hlýrri sæng.

Er hægt að fá meðferð við kláðamaur?
Meðferðin felst í því að smyrja allan líkamann (nema andlit og hársvörð) með áburði sem drepur maurinn. Áburðinn er hægt að kaupa án lyfseðils í lyfjaverslunum og leiðbeiningar fylgja í pakkanum.

Bólfélagi og fjölskyldumeðlimir verða að fá meðferð samtímis svo smitun eigi sér ekki stað að nýju. Sængurfatnaður og föt eru þvegin á venjulegan hátt. Kláðinn getur haldið áfram í nokkrar vikur eftir að meðferð lýkur þótt maurinn sjálfur sé horfinn.

Greinin er fengin af vef Landlæknis og er birt með góðfúslegu samþykki þeirra

uppfært 24.11.2016

Höfundur greinar