Klamydíusýking orsakast af bakteríu (Chlamydia trachomatis). Þessi baktería getur sýkt bæði kynfæri og augu. Tíðni sjúkdómsins hefur aukist mikið og vitað er að þúsundir einstaklinga hafa smitast hérlendis á undanförnum árum.
Smitleiðir
Klamydíusmit berst milli manna við snertingu slímhúða, venjulega við samfarir.
Einkenni
Fæstar konur og einungis helmingur karla fá einkenni klamydíusýkingar.
Einkenni karla eru útferð úr þvagrásinni (slímkenndur vökvi, glær, hvítur eða gulleitur) og stundum sviði og kláði í þvagrásinni og við þvaglát. Þessi einkenni koma oft fram 1-3 vikum eftir samfarir sem leiddu til smits.
Einkenni kvenna eru aukin útferð (hvítur eða gulleitur, slímkenndur vökvi frá leggöngum), sviði eða kláði í þvagrásinni við eða eftir þvaglát, tíð þvaglát, óreglulegar blæðingar og stundum kviðverkir.
Einkenni geta horfið á fáeinum dögum hjá báðum kynjum og blundar þá sýkingin í langan tíma. Hún getur blossað upp síðar af mismunandi orsökum, t.d. vegna annarra sýkinga. Hægt er að bera klamydíusmit í langan tíma áður en sýkillinn breiðist út og byrjar að valda einkennum. Fjölmargir fá aldrei nein einkenni þó þeir séu sýktir.
Fylgikvillar
Ef ekki er brugðist fljótt við klamydíusýkingu er hætta á bólgum í eggjaleiðurum kvenna og jafnvel bólgu í eistum karla. Klamydía er algengasta orsök bólgu í eggjaleiðurum og getur slík bólga leitt til ófrjósemi eða utanlegsfósturs. Klamydía getur sýkt augu og valdið verulegri bólgu með tímabundinni blindu. Því oftar sem einstaklingur sýkist þeim mun meiri líkur eru á skaðlegum aukaverkunum svo sem ófrjósemi.
Greining
Við læknisskoðun sést oft dálítill roði fremst við þvagrásarop karla og hjá konum sést roði og bólga í slímhúð legganga og á leghálsi. Stundum sést ekkert athugavert við skoðun karla og kvenna þótt sýking sé til staðar.
Nú orðið er auðvelt að greina smit. Einungis þarf þvagprufu til. Niðurstöður liggja yfirleitt fyrir innan fárra daga. Ekki er hægt að greina klamydíusýkingu með blóðprófi. Fyrir getur komið að klamydía finnist ekki við rannsókn þótt viðkomandi sé sýktur.
Meðferð
Klamydía er meðhöndluð með ákveðnum sýklalyfjum í töfluformi. Penísillínmeðferð dugar þó ekki. Þau lyf sem oftast eru notuð nú á dögum þarf aðeins að taka í einum skammti eða einu sinni á dag í vikutíma. Eins og áður segir eru rannsóknir ekki alltaf öruggar. Því er mikilvægt að meðhöndla alla sem grunur leikur á að séu smitaðir, jafnvel þótt niðurstöður rannsókna hafi ekki staðfest smit.
Greinin var uppfærð 18.september 2019 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar