Kossageit

Kossageit (impetigo) er sýking í ystu lögum húðarinnar sem í flestum tilfellum er orsökuð af grúppu A streptókokkum (keðjukokkum). Í um þriðjungi tilfella má finna Staphylococcus aureus (klasakokka) ýmist einan sér eða með streptókokkunum. Stafýlókokkar og streptókokkar geta einnig verið í hálsi og á órofinni húð án þess að gefa nokkur einkenni þaðan. Sýkingin nær oftast fótfestu eftir minni háttar húðrof.

Efnisyfirlit

Einkenni

Kossageit byrjar oftast sem litlar blöðrur sem rofna auðveldlega og við það myndast gulleitt hrúður sem situr fast. Útbrotin eru algengust í andliti og á höndum. Stöku sinnum geta margar litlar blöðrur runnið saman og getur þá myndast stórt svæði þakið gulleitu hrúðri. Oft fylgir kláði og getur sýkingin breiðst út ef viðkomandi klórar sér. Engir verkir eru á sýkingarsvæðinu og almenn einkenni eru lítil sem engin. Sýkingin gengur yfir án örmyndunar.

Smitleiðir

Kossageit smitast auðveldlega og smit innan fjölskyldu og í daggæslu barna er vel þekkt vandamál. Bakterían kemst á fingur þegar komið er við úbrotin og smitar áfram með höndum til annarra. Smit getur einnig borist á milli með hlutum, sem dæmi má nefna leikföng og handklæði.

Greining

Greining fæst í flestum tilfellum við skoðun. Hægt er að taka ræktun frá útbrotunum og þannig fá vitneskju um hvaða baktería veldur sýkingunni og upplýsingar um sýklalyfjanæmi.

Meðferð

Oft er engin þörf á sýklalyfjameðferð heldur nægir að þvo með vatni og sápu, mýkja hrúðrið og fjarlægja það varlega. Ef sú meðferð dugar ekki má nota sýkladrepandi krem (Fucidin eða Topicin), en ónæmi gegn lyfjunum er þó vel þekkt. Ef kossageit er útbreidd getur sýklalyfjameðferð með töflum eða mixtúru reynst nauðsynleg.

Forvarnir

Ekki er til bóluefni gegn kossageit.
Besta forvörnin er hreinlæti og góður handþvottur.

Aðgerðir við hópsýkingar í daggæslu barna

Góður handþvottur ásamt eigin handklæði fyrir alla, starfsmenn og börn eða einnota pappírsþurrkur er mjög mikilvægur þáttur í að stöðva útbreiðslu smitsins. Einnig er mikilvægt að klippa neglur barnanna.
Við útbreidda sýkingu eru tilmæli til foreldra að halda barninu frá daggæslu þar til hrúðrið er fallið af og svæðið er orðið þurrt. Ef barnið hefur fengið sýklalyf (krem eða í inntöku) má barnið koma þegar 24 klst. eru liðnar frá fyrsta sýklalyfjaskammti. Ef einungis eru stöku blöðrur á litlu svæði getur verið nægjanlegt að hylja svæðið með umbúðum svo barnið geti ekki sett fingurna í útbrotin.

Greinin er fengin af vef Landlæknis og birtist hér með góðfúslegu leyfi

Greinin var uppfærð 11.01.2017

Höfundur greinar