Krabbamein, algengir fylgikvillar

Efnisyfirlit

Lystarleysi og þyngdartap

Lystarleysi og þyngdartap getur verið merki um útbreitt krabbamein. Sum krabbamein framleiða efnasambönd sem valda lystarleysi og auka bruna líkamans. Slíkt ástand leiðir fyrr eða síðar til að gengið er á varaforðann, fitu- og vöðvavef og sjúklingar fara að tapa þyngd. Þetta ástand leiðir til þreytu og slappleika og úr verður vítahringur.

Mikilvægt er fyrir krabbameinssjúklinga með útbreitt krabbamein eða sjúklinga í strangri lyfjameðferð að huga vel að næringarástandi sínu. Þetta er ekki rétti tíminn til að fara í megrun! Mjög mikilvægt er að hesthúsa öllum þeim kaloríum sem menn geta nálgast og spara hvergi við sig. Ef valið stendur á milli rjómaíss með sultu og súkkulaðisósu og hrökkbrauðs má mæla með fyrri kostinum. Næringarráðgjöf getur verið mjög hjálpleg. Mörgum hefur reynst vel að borða litlar máltíðir í senn og borða oft.

Í sumum tilvikum má auka matarlyst með lyfjum. Til þessa hafa verið notaðir sykursterar og aðrir hormónar til að mynda megestrol acetate sem einnig hefur verið notað í alnæmissjúklingum með góðum árangri.

Rannsóknir hafa sýnt að næringargjöf um magaslöngu eða í æð gefst ekki vel í þessum sjúklingahópi.

Mæði

Mæði er óþægileg tilfinning sem á sér margar orsakir. Ekki er óalgengt að krabbameinssjúklingar leiti sér læknishjálpar á bráðamóttökum vegna mæði. Í fyrstu beinist athygli læknisins þá gjarnan að lungunum. Algengir sjúkdómar í lungum eru lungnakrabbamein, fleiðruvökvi, lungnabólga, berkjubólga o.s.frv. Blóðleysi er algeng ástæða mæði í krabbameinssjúklingum. Hjartasjúkdómur veldur oft mæði. Vitað er að geislun og lyfjameðferð (antracyclin, traztusumab o.fl.) geta skert styrk hjartavöðvans og valdið hjartabilun. Vökvasöfnun í gollurshúsi, fleiðru og kviðarholi eru algengar ástæður mæði í krabbameinssjúklingum. Stundum er kvíði ástæða mæði.

Það er ljóst að ástæður mæði eru margvíslegar, og meðferð mismunandi í hverju tilviki fyrir sig. Áríðandi er að hafa í huga að þó svo að í sumum tilvikum sé ekki hægt að leiðrétta orsök mæðinnar má alltaf eyða þessari óþægilegu tilfinningu með lyfjagjöf.

Ógleði og velgjuvörn

Óþægilegasta aukaverkun lyfja- og geislameðferðar hefur verið ógleði í gegnum tíðina. Vissulega eru í notkun krabbameinslyf sem valda lítilli sem engri ógleði, en þau eru þó fleiri sem valdi miðlungi eða mikilli ógleði. Sem betur fer hefur velgjuvörn fleygt fram á undanförnum árum. Má segja að með tilkomu nýrra ógleðilyfja á undanförnum 10 árum eða svo, heyri markverð ógleði samfara lyfjameðferð sögunni til. Þeir munu fáir sem gráta það.

Krabbameinslyf eru flokkuð í 3 flokka eftir því hversu ógleðivaldandi þau eru. Lyf sem valda ógleði í færri en 10% tilvika eru talin hafa lágan ógleðistuðul, en þau sem valda ógleði í yfir 30% sjúklinga háan. Lyf sem valda ógleði í 10-30% sjúklinga eru sögð hafa meðalsterka ógleðitilhneigningu. Krabbameinslæknar nota þessa flokkun til að ákveða hversu mikla velgjuvörn þurfi að gefa sjúklingnum. Í sumum tilvikum er nóg að sjúklingurinn hafi væg ógleðivarnandi lyf við höndina og noti eftir þörfum. Í öðrum tilvikum eru sterk ógleðivarnandi lyf gefin fyrir, á meðan og eftir lyfjagjöf. Í öllum tilvikum er markmiðið hið sama, þ.e. að sjúklingurinn finni ekki fyrir ógleði meðan á krabbameinsmeðferð stendur.

Þreyta

Þreyta er algengasta kvörtun krabbameinssjúklingsins. Þreyta er yfirleitt skilgreind sem tilfinning/einkenni sem hamli venjulegum athöfnum daglegs lífs. Margar ástæður eru fyrir þreytu. Um 90% krabbameinssjúklinga sem ganga í gegnum lyfjameðferð finna til þreytu meðan á meðferð stendur. Krabbameinslækni ber í samvinnu við sjúkling sinn að reyna að komast að hvað þreytunni veldur. Í flestum tilvikum er hægt að vinna bug á þreytu.

Auk krabbameinslyfjameðferðar valda flest krabbamein þreytu. Þetta virðist vera vegna ýmissa efnasambanda sem krabbameinið myndar. Einnig geta krabbamein valdið vökvasöfnun í kviðar- og brjóstholi sem oftar en ekki leiðir til mæði og þreytu. Algengt er að krabbameinssjúklingar séu blóðlausir, ýmist vegna sjúkdómsins sjálfs eða krabbameinslyfjanna. Blóðgjöf eða lyfjagjöf til að auka framleiðslu rauðra blóðkorna í merg getur reynst mjög hjálpleg. Útiloka þarf vanstarfsemi á ýmsum innkirtlum s.s. skjaldkirtli, nýrnahettum og heiladingli. Sýkingar af völdum veira, sveppa og baktería eru algengari í krabbameinssjúklingum vegna þeirrar ónæmisbælingar sem sjúkdómurinn og meðferðin veldur. Sýkingar eru algeng ástæða þreytu. Margir krabbameinssjúklingar hafa hjartasjúkdóm s.s. kransæðasjúkdóm, hjartavöðvasjúkdóm og hjartabilun. Allt eru þetta algengar ástæður þreytu. Síðast en ekki síst ber að nefna þunglyndi og áhyggjur sem því fylgja að vera með erfiðan, langvarandi og stundum lífshættulegan sjúkdóm. Flestir sjúklingar fá mikla hjálp frá öðrum sjúklingum, fjölskyldu, stuðningshópum og trúfélögum. Margir stunda hugleiðslu reglulega. Lyfjagjöf við þunglyndi og kvíða er mjög árangursrík. Holl fæða, útivera, hreyfing og samneyti við annað fólk er ómetanlegt.

Þunglyndi og kvíði

Geðraskanir eru algengar í krabbameinssjúklingum ekki síður en í öðrum hópum þjóðfélagsins. Rannsóknir sýna að um helmingur krabbameinssjúklinga þjáist af þunglyndi og/eða kvíða einhverju sinni á sjúkdómsferli sínum.

Einkenni þunglyndis eru mörg. Þau helstu eru leiði, sektartilfinning, einbeitingarskortur, lystarleysi, minnkuð kynlöngun, þreyta og svefntruflanir.

Einkenni kvíða eru yfirleitt áhyggjur, órói og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru mæði, brjóstverkir, hjartsláttur, svimi, ógleði, niðurgangur, kviðverkir og hægðatregða. Oft fara kvíði og þunglyndi saman.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í lyfjameðferð kvíða og þunglyndis. Nýju lyfin eru mjög árangursrík, hafa fáir aukaverkanir og það er mjög þakklátt læknisverk að hjálpa fólki sem fær þessa sjúkdóma. Aðalókostur meðferðarinnar er sá að það tekur yfirleitt 2-3 vikur fyrir sum þessara lyfja að hafa tilætluð áhrif. Ýmis kvíðastillandi lyf verka þó miklu fyrr, og sjúklingum líður mun betur fáum klukkustundum eftir að meðferð er hafin.

Verkir og verkjameðferð

Verkir eru algengur fylgikvilli krabbameina. Talið er að ríflega helmingur krabbameinssjúklinga hafi verki einhvern tímann á sjúkdómsferli sínu. Sem betur fer höfum við nú yfir að ráða góðum verkjalyfjum og öðrum aðferðum til að meðhöndla verki. Satt að segja á enginn krabbameinssjúklingur að þurfa að þjást af verkjum. Rannsóknir hafa sýnt að horfur sjúklinga sem eru vel verkjastilltir eru betri en þeirra sem hafa langvarandi verki. Sjálfsvíg eru algengari hjá fólki með langvarandi verki. Einnig má ætla að þeir sem séu vel verkjastilltir borði betur og séu meira á ferli sem kann ad skýra betri horfur þeirra.

Bráðir og slæmir verkir geta verið ástæða fyrir innlögn á sjúkrahús til verkjastillingar. Einnig geta verkir verið merki um alvarlegan fylgikvilla krabbameins. Sem dæmi má nefna að bakverkir geta verið merki um meinvarp í hrygg og yfirvofandi þrýsting á mænu sem getur valdið lömun. Það er því áríðandi að gera viðeigandi rannsóknir á slíkum sjúklingi til að útiloka slíkt eða meðhöndla strax ef grunur er staðfestur. Verkir vegna mænuþrýstings eru meðhöndlaðir með verkjalyfjum og einnig er þrýstingnum aflétt með geisla- eða skurðaðgerð.

Í flestum tilvikum eru verkir meðhöndlaðir með verkjalyfjum. Fyrsta þrep verkjastigans samanstendur af vægum verkjalyfjum s.s. acetominopheni (parasetamól) og acetylsalisylsýru líkum lyfjum (magnyl, asperin, ibuprofen og önnur bólgueyðandi lyf). Í öðru þrepi verkjastigans eru verkjalyfjablöndur. Algengar eru blöndur af acetominopheni og vægum ópíötum (codein og skyld lyf).
Í þriðja þrepi stigans eru loks sterk ópíöt. Morfín er dæmigert lyf í þessum flokki. Þetta eru ákaflega góð lyf og áhrifarík. Nokkur hræðsla er við notkun þessara lyfja bæði meðal sjúklinga og lækna. Sú hræðsla er á misskilningi byggð. Sjúklingar verða ekki „háðir“ þessum lyfjum og geta hætt notkun þeirra ef þeir þurfa ekki lengur á þeim að halda. Nauðsynlegt er að auka og lækka skammta í smáum skrefum og að sjálfsögðu í samráði við lækni sem er vanur að nota þessi lyf. Eina markverða aukaverkun þessara lyfja er hægðatregða og því er mikilvægt að nota hægðalyf samfara töku þeirra.

Fleiri lyf koma að notum við verkjameðferð. Má sem dæmi nefna að ýmis krampalyf og þríhringlaga-geðdeyfðarlyf gagnast oft mjög vel við svokölluðum taugarótarverkjum. Einnig ber að hafa í huga að kvíði og þunglyndi geta magnað verki og ef þessi einkenni eru til staðar getur rétt meðhöndlun skipt sköpum í verkjameðferð.

Höfundur greinar