Lewy body er heilabilunarsjúkdómur og er talinn næst algengasta orsök heilabilunar á eftir Alsheimer. Þessi sjúkdómur er kenndur við próteinútfellingar í taugafrumum í heila sem kallaðar eru Lewy body. Þessar útfellingar finnast í ýmsum öðrum sjúkdómum og það gerir greininguna erfiðari og um leið erfitt að átta sig á tíðni hans.
Efnisyfirlit
Orsakir
Sjúkdómurinn er eins og áður sagði orsakaður af útfellingum á alpha-synuclein próteini í taugafrumum í heilanum. Einstaklingar með Lewy body verða fyrir skerðingu á skynjun, hugsun og breyttri hegðun. Þeir upplifa einnig ofskynjanir, einkenni sem líkjast Parkinsons og eru misvel áttaðir.
Útfellingarnar eru kallaðar Lewy bodies, eftir Friederich H. Lewy, sem var fyrstur til að lýsa þeim snemma á 20.öld. Þessar útfellingar finnast einnig hjá einstaklingum með Parkinsons og stundum hjá einstaklingum með Alsheimer og það gerir greininguna erfiðari.
Áhættuþættir
Aldur er eini þekkti áhættuþátturinn. Flestir greinast á aldrinum 50 til 85 ára. Til eru fjölskyldur þar sem fleiri en einn fjölskyldumeðlimur hafa greinst með sjúkdóminn en í flestum tilfellum er ekki um ættarsögu að ræða.
Einkenni
Einstaklingar með Lewy body heilabilun hafa gjarnan meira af Parkinson einkennum heldur en Alsheimer sjúklingar. Það eru til dæmis hægar hreyfingar, stirðleiki eða stífni í vöðvum, skjálfti, göngulag þar sem viðkomandi dregur fæturna og dettni. Einstaklingar með Lewy body heilabilun sýna líka einkenni sem eru sameiginleg með Alsheimer sjúklingum svo sem minnistap, skert dómgreind, illa áttuð, ranghugmyndir, áhugaleysi og jafnvel depurð eða þunglyndi.
Það eru einkum þrjú einkenni sem greina Lewy body heilabilun frá öðrum heilabilunarsjúkdómum:
- Endurteknar skýrar ofskynjanir sem er erfitt að aðgreina frá raunveruleikanum.
- Mismikil árvekni eða áttun (Einstaklingurinn getur verið afar sljór en skyndilega fyllst orku sem gerir aðstandendum afar erfitt fyrir um að meta ástand hans)
- Alvarleg svefnvandamál eins og að framkvæma drauminn ( ganga í svefni og svo framvegis) og snarpar ósjálfráðar hreyfingar (það er þekkt meðal einstaklinga með Lewy body að þeir hafi óvlijandi slegið rekkjunaut sinn í svefni eða dottið fram úr rúmi sínu).
Greining
Eingöngu er hægt að greina prótein útfellingarnar með fullri vissu við krufningu. Því þarf að fara fram ítarleg skoðun við greiningu sjúkdómsins eins og við Alsheimer til þess að hægt sé að útiloka að um aðra sjúkdóma geti verið að ræða. Breytileg árvekni, ofskynjanir og Parkinson lík einkenni eru algengustu einkenni um sjúkdóminn, ef að minnsta kosti tvö þessarra einkenna fylgja almennri vitsmunalegri hrörnun.
Meðferð
Meðferð er fremur erfið. Einstaklingar með þennan sjúkdóm fá oft andstæða verkun af geðlyfjum sem annars eru almennt notuð til að meðhöndla ranghugmyndir og ofskynjanir. Því er yfirleitt ekki mælt með notkun slíkra lyfja fyrir þessa sjúklinga. Sýnt hefur verið fram á að þau lyf sem almennt eru notuð til að meðhöndla Alsheimer geta verið hjálpleg.
Þar sem einstaklingar með Lewy body heilabilun eru gjarnan með Parkinson lík einkenni hafa Parkinson lyf komið að gagni við þeim einkennum. Hins vegar geta þau lyf aukið við ranghugmyndir, ofskynjanir og dregið úr áttun einstaklingsins.
Atferlsistjórnun getur komið að gagni, til dæmis með því að draga úr koffín neyslu og auka líkamlega hreyfingu yfir daginn og tryggja rólegheit og slökun að kvöldi getur dregið úr svefnvandamálum.
Horfur
Því miður er engin lækning til við sjúkdómnum. Lífslíkur eru nokkuð á reiki, allt frá 2- 20 árum eftir aldri, einkennum og öðrum heilsufarsvandamálum.
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar