Salmónellubakteríur – sýkingar

Salmonella er baktería með yfir 2000 afbrigði (sermisgerðir). Algengastar hér á landi eru S. Enteritidis og S. Typhimurium og er uppruni smits oftast af erlendum toga. Stærstu hópsýkingarnar hérlendis á síðastliðnum árum voru árið 1996 af völdum S. Enteritidis í rjómabollum og árið 2000, þegar S. Typhimurium barst með jöklasalati.

Margar sermisgerðir sýkja bæði menn og fjölda dýrategunda, þær algengustu eru m.a. nautgripir, svín og hænsnfé en einnig bera skjaldbökur og slöngur oft bakteríuna. Víða erlendis valda egg menguð með S. Enteritidis sýkingum í fólki.

Efnisyfirlit

Smitleiðir

Helsta smitleiðin er með menguðum matvælum. Beint smit manna á milli er fremur sjaldséð en kemur einna helst fyrir hjá einstaklingum sem annast sjúklinga með Salmonella sýkingu, ef handþvottur er ófullnægjandi.

Einkenni

Niðurgangur, ógleði, uppköst, kviðverkir og hiti, sem gengur í flestum tilfellum yfir á á 4–5 dögum. Ef sýkingin hefur dreift sér til líffæra utan meltingarfæra geta komið einkenni frá sýkingarstað.

Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er 1–3 dagar í flestum tilfellum, en getur verið allt frá 6 klst. upp í 10 daga.

Fylgikvillar

Fyrir kemur í fáum tilfellum að bakterían fer út í blóðið og veldur sýkingum í líffærum utan meltingarfæranna, t.d. í hjarta og æðakerfi, milta, lifur og gallgöngum.
Meðal beratími (sá tími sem baktería er í saur) eftir sýkingu er 5–6 vikur en getur verið margir mánuðir og jafnvel ár.

Greining

Langoftast er sent saursýni í ræktun. Við sýkingar í blóði eða öðrum lífærum þarf að senda sýni í ræktun frá sýkingarstað.

Meðferð

Í flestum tilfellum er meðferð með sýklalyfjum óþörf, en stundum reynist nauðsynlegt að gefa vökva í æð til að bæta upp vökvatap.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Gott hreinlæti er mjög mikilvægt.

  • Þvoið hendur með sápu og vatni eftir salernisferðir, eftir snertingu við dýr og fyrir alla meðferð matvæla.
  • Vel steikt kjöt, einkum ef það er hakkað, dregur úr líkum á smiti.
  • Forðist neyslu ógerilsneyddar mjólkur og afurða hennar.
  • Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.

Viðbrögð við einstökum sýkingatilfellum eða sýkingahrinu

  • Þeir sem eru með staðfesta sýkingu mega ekki fara í sund eða potta á meðan einkenni eru til staðar (sérlega mikilvægt fyrir bleiubörn).
  • Kanna þarf hvort fleiri eru með einkenni og taka sýni frá þeim sem eru með einkenni salmonellusýkingar.
  • Ef barn í dagvistun greinist með salmonellu skal hafa samband við dagvistunina ef barnið dvaldi þar dagana fyrir veikindi eða var með einkenni í dagvistuninni.
  • Ef grunur leikur á hópsýkingu eða sýkingahrinu skal hafa samband við umdæmis-/svæðislækni sóttvarna og heilbrigðiseftirlit á viðkomandi svæði, t.d. ef tvö eða fleiri tilfelli greinast.
  • Salmonellusýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur  til sóttvarnalæknis.

Störf með aukna smithættu eða áhættu dagvistun barna

Eftirfarandi hópar, sem teljast vera með aukna smithættu eða starfa við umönnun mjög veikra sjúklinga, mega snúa aftur til vinnu þegar þeir hafa skilað einu neikvæðu saursýnu. Sýnið má taka í fyrsta lagi þremur dögum eftir að einkenni hverfa og endurtaka má sýnatöku 24 klst. síðar.

  • Þeir sem starfa við framleiðslu, flutning eða framreiðslu matvæla og eru í beinni snertingu við ópökkuð matvæli.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem eru í beinum samskiptum við sjúklinga sem eru með alvarlega ónæmisbælingu, eða eru inniliggjandi á vökudeild eða gjörgæslu.

Börn í dagvistun mega koma aftur þegar þau hafa verið einkennalaus í tvo daga en gæta skal vel að handhreinsun þeirra fyrstu vikurnar eftir sýkingu. Heilbrigðisstarfsmenn sem ekki tilheyra ofangreindum áhættuhópum mega koma aftur til vinnu þegar þeir hafa verið einkennalausir í tvo daga en ber að gæta vel að handhreinsun, einkum ef þeir tilreiða matvæli fyrir sjúklinga, fyrstu vikurnar eftir sýkingu.

Greinin birtist á vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi

Uppfært 9.12.2019

Höfundur greinar