Sjálfsskoðun á eistum

Samkvæmt kabbameinsfélaginu er eistnakrabbamein tiltölulega sjaldgæft miðað við önnur krabbamein. Það er samt sem áður algengasta illkynja mein sem karlmenn á aldrinum 25-39 ára greinast með. Að sama skapi er eistnakrabbamein eitt fárra læknanlegu krabbameina jafnvel þó að það hafi náð að dreifa sér.

Yfirleitt eru engin sérstök byrjunareinkenni. Ef þú finnur fyrir óljósum eymslum, stækkun á öðru eista (þarf ekki að gefa verk),  hnút eða  hefur á tilfinningunni að annað eistað sé þyngra en venjulega er almennt talið ráðlegt að fá nánara mat hjá lækni. Einkennin eru oftast merki um eitthvað saklaust en allur er varinn góður. Sérstaklega ef þessi einkenni ganga ekki tilbaka af sjálfu sér innan þriggja vikna.

Ef þú finnur engin einkenni og það er engin saga í nærfjölskyldunni um krabbamein í eistum ættir þú ekki að þurfa að láta skoða þig sérstaklega.

Sjálfsskoðun

Til þess að átta sig á því hvort eistun séu öðruvísi en venjulega þarf að sjálfsögðu að þreifa þau reglulega til þess að finna muninn, rétt eins og konur þurfa að þreifa brjóstin. Mælt er með því að skoða eistun einu sinni í mánuði eins og á við um sjálfsskoðun brjósta.

Veldu hentugan tíma. Flestum hentar best að framkvæma sjálfsskoðun í sturtu eða strax eftir sturtu eða heitt bað. Það er vegna þess að þá slaknar á húðinni í pungnum og það er auðveldara að þreifa á eistunum eftir hnútum eða þykkildum. Hnútar eða þykkildin geta verið á stærð við hrísgrjón eða baun.

Skoðaðu annað eistað í einu. Haltu utan um punginn með annarri hendi og staðsettu eistað og skorðaðu það svo það færist ekki of mikið til á meðan þú þreifar það. Notaðu svo hina hendina til þess að þreifa eftir hnút eða óreglu á eistanu.

Efst aftan á eistanu tengist sáðrásin við það. Það heitir eistnalyppa og það er auðvelt að mistaka það sem hnút og hún getur líka verið aum viðkomu sem er eðlilegt.

Það er eðlilegt að eistun séu misstór og að þau gangi mislangt niður í punginn (séu missíð).

Hafðu samband við lækni ef þú finnur hnút, bólgu eða einhverja breytingu á stærð eða litarhafti. Eins ef þú finnur verk eða eymsli. Ekki er endilega um krabbamein að ræða þó að þú finnir hnút eða bólgu en það borgar sig að fá úr því skorið hjá lækni.

Höfundur greinar