Efnisyfirlit
Hvað er sogakvef?
Sogakvef er skyndilegur samdráttur í efri hluta öndunarfæra sem veldur þar þrengingu, einnig getur komið bjúgur í slímhúð öndunarfæranna. Oftast kemur sjúkdómurinn fram á þann hátt að barnið vaknar upp um miðja nótt, kaldsveitt og hrætt með hávær innöndunarsoghljóð. Þessu fylgir harður, geltandi hósti sem minnir á selsgelt. Sogakvef getur komið með eða án kvefeinkenna. Börnin eru hitalaus. Þetta gengur venjulega yfir á 1-2 klst. en köstin geta endurtekið sig. Mikilvægt er að allir sem sinna barninu haldi ró sinni. Sjúkdómurinn er algengastur hjá börnum á aldrinum 1-5 ára. Sjúkdómur sem lýsir sér á svipaðan hátt er kvashósti (croup) en þá er bólga orsök þrengingar öndunarvegarins. Þau börn eru veikari og venjulega með hita.
Hver er orsökin?
- Talið er að orsök sjúkdómsins séu veirur en orsökin er oft óviss.
- Ef barnið hefur áður fengið sogakvef hefur það tilhneigingu til að endurtaka sig. Eftir 4-5 ára aldurinn minnka einkennin.
- Ofnæmi gagnvart parainflúensu veirunni getur jafnvel átt einhvern þátt í sjúkdómsmyndinni. Börn með ofnæmi fá oftar pseudocroup.
- Sálrænir þættir geta átt hlut að máli.
Hver eru einkennin?
- Hrjúfur og geltandi hósti.
- Sogandi andardráttur og hæsi.
- Einkenni byrja á nóttinni, þegar barnið hefur legið í einhvern tíma.
- Engin hitahækkun.
- Oft enginn undanfari en barnið getur hafa haft smá kvef dagana á undan.
- Gengur yfirleitt yfir á 1-2 klst.
- Köstin geta endurtekið sig.
Hverju ber að huga að?
- Hvort barnið fær hita og verður veikindalegt.
- Hvort barnið verður mjög þreytt og sinnulaust.
- Hvort barnið verður bláleitt umhverfis munn, nef og neglur.
- Hvort barnið á erfitt með andardrátt.
Hvað er hægt að gera?
- Mikilvægast er að hafa rólegt umhverfi. Látið barnið slaka á og reynið að halda því afslöppuðu. Grátur barnsins eykur hjá því slímmyndun sem þrengir loftveg.
- Verið sjálf róleg. Barnið skynjar óróleika og hræðslu.
- Láttu barnið sitja, þannig að auðveldara verður fyrir það að anda.
- Gott er barnið andi að sér vatnsgufu, t.d. með því að láta heitavatnið renna inni á baðherbergi og láta herbergið mettast dálítið af gufu. Sitja síðan hjá barninu í gufunni og reyna að róa það.
- Einnig getur linað einkennin að klæða barnið vel og fara með það út í þurrt og kalt andrúmsloft.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
- Greiningin byggist á sjúkdómseinkennum.
- Mikilvægt er að greina frá öðrum sjúkdómum sem valda þrengingu í öndunarfærum og geta verið hættulegir.
Hver er meðferðin?
- Engin lyf eru nauðsynleg.
- Gufumeðferð hjálpar mest, einnig þurrt kalt loft.
- Hægt er að geta barninu róandi lyf ef það er mjög angistarfullt
Greinin var uppfærð í apríl 2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar