Útferð

Efnisyfirlit

Hvað er útferð?

Þeim konum sem eru orðnar kynþroska er eðlilegt að hafa útferð frá leggöngum og er hún tilkomin vegna endurnýjunar frumna í leggöngum. Útferð er oftast gulleit eða mjólkurhvít og er magn og þykkt mismunandi eftir því hvar í tíðahringnum konan er stödd. Í útferðinni eru einnig ákveðnar bakteríur og er þar ríkjandi baktería sem kallast lactobacillus og taka þær þátt í að halda sýrustigi leggangnanna súru, en sýrustig þeirra er frá pH 3.5 til pH 4.5. Sýrustigið í leggöngunum er síbreytilegt og stjórnast m.a af tíðahringnum, en mikilvægt er að það haldist á þessu bili til að halda gerlagróðrinum í jafnvægi. Hluti af eðlilegu leggangaflórunni er sveppurinn candida albicans en hann er mjög næmur á sýrustigið og ef það hækkar fer hann að fjölga sér óhóflega og veldur þá gjarnan óþægindum.

Hvað er eðlilegt?

Um það bil fimmtungur allra kvenna á barneignaaldri eru með útferð af einhverju tagi nær daglega. Það er erfitt að segja til um hvað er eðlilegt í þessu efni og hvenær útferð telst of mikil – lyktin og magnið eru mjög mismunandi og konur leggja misjafnt mat á það hvað þær telja vera of mikla útferð. Mörgum unglingsstúlkum finnst útferðin vera óeðlileg og sumar finna fyrir óþægilegurm kláða þótt ekki sé um leggangasýkingu að ræða. Í mörgum tilvikum verður bara að venjast útferðinni og sætta sig við hana. Ef útferðin er mislit; t.d. grænleit eða brúnleit, eða veldur kláða getur orsökin verið leggangasýking, ef svona er komið er mikilvægt að leita læknis strax. Eftir breytingaskeiðið verður slímhúðin í leggöngunum þynnri og útferðin minnkar hjá mörgum konum. Þetta gerir það að verkum að bakteríur og sveppir eiga auðveldari aðgang og sýkingar því algengari.

Hvað er leggangasýking?

Aukin útferð er eitt fyrsta einkenni sýkingar í leggöngum. Útferð er talin óeðlileg þegar hún breytir um lit, verður t.d grænleit eða brúnleit, verður illa lyktandi og/eða þegar hún veldur óþægindum, kláða eða sársauka í leggöngum. Algengasta orsök aukinnar útferðar er sýking af völdum baktería, sveppa eða veira. Í leggöngunmun eru við eðlilegar aðstæður til staðar nokkrar tegundir af bakteríum og sveppum. Hvaða gerlar það eru sem stjórna hinni eðlilegu flóru legganganna er svolítið misjafnt eftir aldri. Fyrir kynþroska og eftir tíðahvörf er gerlaflóran rýr og ósértæk og er samsett úr þeim bakteríum sem eru á húðinni og við endaþarminn. Á barneignaraldri er það hormónið estrogen sem hefur hvað mest áhrif á gerlaflóruna. Estrogen hvetur til uppsöfnunar á efninu glycogeni í frumur legganganna, baktería sem kallast lactobacillus notar glycogen og umbreytir því í mjólkursýru sem gerir það að verkum að sýrustig legganganna helst á bilinu pH 3.5 – pH 4.5, en þetta eru kjöraðstæður bakteríunnar og jafnframt kemur þetta í veg fyrir að aðrar baktreíur og sveppir fjölgi sér of mikið. Í eðlilegu flórunni getur einnig verið að finna kólígerla og streptococca. Ef pH-gildið breytist getur það valdið ofvexti ýmissa gerla í leggöngunum og þá er það kallað leggangasýking, en það er leggangasýking sem ekki hefur smitast frá öðrum. Einnig er hægt að smitast af framandi bakteríum og veirum við samfarir eða annars konar kynlíf eins og munnmök og endaþarmsmök.

Helstu einkennin sýkingar eru:

lita- og lyktarbreytingar á útferðinni kláði, sviði og sárindi við þvaglát eða samfarir tíðatruflanir þyngsli í móðurlífinu. Þegar konan fær leggangasýkingu víkur venjulegi gerlagróðurinn í leggöngunum fyrir sóttkveikjandi örverum eins og bakteríum, sveppum, veirum og sníkjudýrum og aðrar sýkingar geta því komið í kjölfarið eins og talið er hér upp að neðan.

Algengustu bakteríur sem valda leggangasýkingum:

Neisseria gonorrhoea baktería sem smitast eingöngu við samfarir og veldur kynsjúkdómnum lekanda. Lekandi getur verið einkennalaus en hjá sumum veldur hann sárindum við þvaglát. Lekandi er ekki algengur nú til dags. Chlamydia trachomatis smitast við samfarir og veldur kynsjúkdóminum klamydíu sem því miður er oft einkennalaus uns í óefni er komið og sýkingin hefur borist inn í leghálsinn, legbotninn eða í eggjaleiðarana. Klamydiasýkinar eru einn stærsti þáttur í því að valda ófrjósemi nú á tímum. Gardnerella vaginalis baktería sem er til staðar í leggangaflórunni en getur valdið sýkingum ef pH-gildi legganganna verður basískara. Útferðin verður gráleit, jafnvel gul og hlaupkend og lyktar ögn eins og fiskur. Oft fylgir kláði og óþægindi

Veirur sem valda leggangasýkingum:

Veirusýkingar sem smitast við kynmök geta haft sömu einkenni og leggangasýking þótt þær komi oftast fram á ytri kynfærum Herpes orsakast af herpesveirum sem smitast við kynmök. Herpes lýsir sér sem smáblöðrur og sár sem venjulega eru á skapabörmunum en ekki inni í sjálfum leggöngunum. Í fyrsta sinn sem herpes brýst út, fylgir því oft sótthiti, almennur lasleiki og sviði við þvaglát og ytri kynfæri verða oft rauð og bólgin. Kynfæravörtur orsakast af Human papilloma veirum og smitast við kynmök. Ákoman birtist sem smábólur sem líkjast vörtum. Þær koma yfirleitt fram á skapabörmunum, við þvagrásaropið, á munaðarhólnum og kringum endaþarminn. Kynfæravörtur geta líka komið fram í leggöngunum.

Aðrir sýkingavaldar:

Trichomonas vaginalis er frumdýr sem smitast við kynmök og veldur sýkingu í leggöngum sem fylgir aukin iðulega illþefjandi, grængul útferð, kláði og sviði eða sárindi í leginu.  Candida albicans er sveppur sem er til staðar í flóru legganganna við eðlilegar aðstæður. Ef sýrustig legganganna verður basískara af einhverjum orsökum fer sveppurinn að fjölga sér og veldur þá aukinni útferð sem er þykk og kekkjótt og minnir gjarnan á kotasælu, þessu fylgir kláði og sviði og húðin verður rauð og aum. Þó er það ekki algilt að útferðin aukist. Mjög algengt er að þessi sveppur valdi sýkingum í leggöngum og er til mikilla óþæginda fyrir margar konur. Algengt er að konur fynni fyrir óþægindum rétt áður en tíðir hefjast en tíðablóðið veldur því að sýrustig legganganna verður basískara og nær sveppurinn þá að vaxa, sama gildir um samfarir, en sæðið gerir sýrustigið basiskara og því finna margar konur fyrir auknum vexti á sveppinum eftir samfarir. Aðrir þættir sem ýta undir vöxt sveppasýkinar er meðferð með sýklalyfjum, of mikil sykurneysla og notkun p-pillunnar. Sykursýkissjúklingar, barnshafandi konur og konur með veikt ónæmiskerfi eiga á hættu að fá endurteknar sveppasýkingar.

Hvernig er sjúkdómsgreiningin gerð og hvernig er leggangasýking læknuð?

Læknir framkvæmir móðurlífsskoðun. Í mörgum tilvikum getur læknirinn snarlega séð eða fundið á lyktinni, hvað amar að. Til staðfestingar tekur læknirinn nokkur sýni úr leggöngunum með bómullarpinna eða tréspaða sem send eru í ræktun og þar er kannað hvaða örverur er um að ræða og hvaða lyfjagjöf er best til að ráða niðurlögum leggangasýkingarinnar. Meðferðin ræðst alltaf af orsök sýkingarinnar og er því mismunandi eftir því hvort um er að ræða sýkla, veirur eða sveppi í leggöngunum.

Hvernig er hægt að forðast leggangasýkingu?

Eina leiðin til að komast hjá leggangasýkingu sem smitast við samfarir er sú að nota smokk. Leggangasýking sem ekki er fengin með smiti verður oftast vegna breytinga á sýrustigi legganganna. Þegar sveppasýking er farin að valda óþægindum er mikilvægt að hafa samband við lækni og fá viðeigandi meðferð.

Nokkrar ráðleggingar til þeirra kvenna sem eru gjarnar á að fá sveppasýkingar:

Reyna að takmarka sykurnotkun. Fyrir þær konur sem hafa sykursýki er mikilvægt að hafa góða stjórn á blóðsykrinum. Ef kona þekkir vel einkenni, þykka kekkjótta útferð, kláða en engan hita eða verki, þá er óhætt að prófa að nota þau lyf sem hægt er að kaupa án lyfseðils í apótekis en leita læknis ef einkennin hverfa ekki. Forðast að nota tíðatappa nema þá rétt á meðan blæðingar eru hvað mestar. Nota einungis volgt vatn til að þvo kynfæri, forðist sápur, freyðibað og sjampó á þetta svæði. Þessar vörur geta innihaldið efni sem þurrka húðina og einnig ofnæmisvaldandi efni. Lactacyd sápa með pH 3,5 hefur þó reynst mörgum konum vel. Veljið nærföt úr bómullarefnum en forðist gerviefni og þegar tækifæri gefst til eins og t.d á nóttunni vera þá án nærfata. Til að fyrirbyggja að sýrustig legganganna raskist hefur sýnt sig að bakterían lactobacillus gengir stóru hlutverki. Lactobacillus framleiðir mjólkursýru sem heldur sýrustiginu réttu og einnig efni sem kallast vetnisperoxíð sem er áhrifaríkt til að fyrirbyggja vöxt baktería. Því er þeim konum sem hafa tilhneygingu til að fá sveppasýkingar oft ráðlagt að neyta fæðu sem inniheldur lactobacillus daglega t.d ab-mjólk og einnig að nota lactobacillusgerla staðbundið í leggöng. Margar konur sem hafa átt við þennan hvimleiða kvilla að stríða hafa náð tökum á vandanum með þessum einföldu aðferðum.

Greinin var uppfærð 6.5.2020 af Guðrúnu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar