Er hægt að glíma við kulnun snemma á lífsleiðinni?

Ég er 27 ára gömul kona og hef glímt við kvíða- og þunglyndisvandamál síðan ég var unglingur. En nú er það orðið þannig að ég á í miklum vandræðum með margt hjá mér, t.d. svefninn hjá mér, ég var á lyfjum sem hjálpuðu mér við að sofna og að halda mér sofandi en ég hætti á þeim því að það hafði mikil áhrif á líf mitt, ég var farin að sofa ítrekað yfir mig og vaknaði ekki við neitt. En núna er ég komin aftur á upphafsreit, ég á erfitt með að sofna en líka erfitt að vakna. Ég nýt vinnunar minnar en ég er hætt að hafa sama áhuga fyrir henni eins og ég hafði. Ég er sífellt utan við mig, gleymi mörgum mikilvægum atriðum og er oft hreinlega alveg úti á þekju og er farin að sofa ítrekað yfir mig aftur. Þetta er orðið þannig að bæði maki minn og yfirmaður hafa haft orð á því að þetta sé vandamál (bæði svefninn og það að vera utan við mig). Sömuleiðis á ég mjög erfitt með einbeitingu, ég er hætt að njóta ýmislegra hluta sem ég naut áður fyrr og finnst ég hreinlega bara hafa misst áhugann og ánægju af því sem ég hafði áður mikla ástríðu fyrir. Ég var í háskólanámi í 6 ár og fór beint í fulla vinnu í framhaldið (reyndar ekki „draumadjobbið“ en mér þótti það ekki tiltökumál, því starfið mitt er mjög tengt því sem ég lærði). Ég kvíði því oft að takast á við daginn og þegar ég á frí (sem er sjaldan því ég tek mjög oft að mér aukaleg verkefni) þá hef ég engan áhuga á neinu, ég var alltaf þannig að mig þyrsti í hreyfingu eða að stunda áhugamálin mín en það er alveg farið. Ég er svolítið hrædd um að hafa keyrt mig algjörlega út sl. ár og veit ekki hvernig ég á að snúa mér í að leita mér hjálpar.

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrispurnina.

Það er mjög mikilvægt fyrir þig að hlusta á viðvörunnarbjöllur þær sem verið er að senda þér.  Ég myndi telja að mikilvægt fyrsta skref fyrir þig væri að ræða við þinn heilsugæslulækni um líðan þína.

Best er að vinna gegn streitu með forvörnum til þess að koma í veg fyrir að hún verði alvarleg. Það er gert með aukinni meðvitund um streituvalda og þekkingu um hættumerki, fyrstu einkenni kulnunar og sjúklegrar streitu. Ég set HÉR tengil á ítarlegra lesefni um streitu og HÉR tengil um mikilvæg atriði til þess að koma í veg fyrir kulnun.

Það er sérstaklega mikilvægt að gæta að andlegri og líkamlegri slökun og hæfilegri hvíld.

Mikilvægt er að hreyfa sig reglulega. Létt þjálfun eins og ganga og sund henta vel þegar álag er mikið. Mikilvægt er að hreyfing sé regluleg þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Matarræði skiptir miklu máli þegar þú ert undir álagi. Hollt fæði og reglulegir matartímar gefa góða næringu og betri líðan. Margir hafa tilhneigingu til að borða óreglulega og auka sykurneyslu þegar álag eykst.

Gangi þér vel, Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur