Af hverju er D-vítamín lífsnauðsynlegt fyrir barnið mitt?

Jón Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur, sem bæði starfa hjá Heilsuvernd og heilsugæslunni í Urðarhvarfi, gera hér stuttlega grein fyrir mikilvægi D-vítamíns, ekki síst fyrir heilsu barna.

Hvað eru vítamín?

Vítamín eru lífræn efni sem eru líkamanum lífsnauðsynleg til að tryggja viðhald og vöxt, heilbrigði og vellíðan. Vítamín fáum við aðallega úr fæðunni. Óheilbrigt og einhæft mataræði getur valdið næringarskorti sem haft getur alvarleg áhrif á líkamsstarfsemi okkar. Þá getur viðvarandi vítamínskortur leitt til hinna ýmsu sjúkdóma. Ættum ávallt að muna að góð og fjölbreytt næring er undirstaða alls heilbrigðis.

D- vítamín

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín sem oft er talið til hormóna frekar en vítamína. D-vítamín er nauðsynlegt fyrir kalkbúskap líkamans, styrkir bein og viðheldur orku og góða skapinu. Einnig er D- vítamin mikilvægt fyrir ónæmiskerfið.

Vítamínið myndast í húðinni fyrir tilstilli sólarljóss en er einnig að finna í fæðutegundum eins og feitum fisk (t.d. laxi og síld), lýsi og eggjum. Þá hefur D-vítamíni verið bætt út í nokkrar matvörur sem eru sérstaklega ætlaðar börnum, t.d. Stoðmjólk og suma ungbarnagrauta.

Er nauðsynlegt að taka D-vítamín inn aukalega?

Við ráðleggjum fólki á öllum aldri að bæta D-vítamíni við sem sérstakri fæðuviðbót, jafnvel þeim sem telja sig búa við fjölbreytt og hollt mataræði. Ástæðan er fyrst og fremst lega landsins á norðurhveli jarðar en hún gerir það að verkum að hér eru færri sólarstundir en hjá flestum öðrum þjóðum. Þeir sólargeislar sem við fáum, (jafnvel að sumri til), einfaldlega duga ekki til að mynda allt það D-vítamín sem við þurfum. Þá hafa matarvenjur okkar breyst í áranna rás, til hins verra að mörgu leyti, með tilheyrandi skorti á vítamínum og öðrum mikilvægum efnum sem eru lífsnauðsynleg eru heilsu okkar.

Sérstaklega mikilvægt er að foreldrar passi vel upp á D-vítamín inntöku hjá börnum sínum en rannsóknir sýna að um 60% barna á Íslandi ná ekki lágmarksgildum D- vítamíns í blóði. Afleiðingar D-vítamínskorts hjá börnum geta verið alvarlegar, m.a. fyrir ónæmiskerfið og andlegt heilbrigði.

Hjá Embætti landlæknis er ráðlagður dagskammtur D-vítamíns er um 15 µg eða um 600 Iu (alþjóða einingar). Þó hafa sumar rannsóknir sýnt að fyrir þá sem búa á norðlægum slóðum ættu að taka enn hærri skammta yfir vetramánuðinn. Mikilvægustu skilaboðin okkar eru að taka D-vítamín dagsdaglega það er alltaf góð byrjun.

Með því að taka ábyrgð á heilsu barnanna okkar þá erum við að tryggja heilbrigði þeirra.

Höfundar greinar