Frjósemi kvenna og fæðingartíðni

Það er talsverð umræða um það í vestrænum heimi að samsetning þjóða er að breytast, fjölgun aldraðra er þar hluti af því sem nefnt er og lækkandi fæðingartíðni kvenna almennt. Slíkt hið sama á einnig við á Íslandi. Frjósemi er mæld sem fjöldi lifandi fæddra barna á æviskeiði konu og er talið að sú tala þurfi að vera í kringum 2,1 til að viðhalda mannfjölda og samsetningu þjóðar. Íslendingar hafa löngum státað af einni hæstu tíðni í Evrópu en það er að breytast og árið 2018 var sögulega lægsta fæðingartíðni frá upphafi mælinga árið 1853 eða 1,7. Meðalaldur mæðra hefur einnig hækkað og er hvoru tveggja áhyggjuefni víðar en hérlendis.

Þær vangaveltur sem hafa komið fram sem skýra eiga þessar breytingar eru vissulega að stóru leyti tengdar samfélagsgerð. Mikil breyting hefur orðið á umhverfi kvenna og karla auðvitað á síðastliðnum áratugum í þessa veru, bæði hafa samfélög líkt og við aukið samtryggingu og ert það síður nauðsynlegt að treysta á fjölskyldu í starfi, leik, veikindum og umönnun aldraðra. Aukin menntun kvenna, þáttaka í atvinnulífinu og breytingar í aldri einstaklinga þegar þeir taka sig saman um að stofna fjölskyldu eru líka skýringar. Almennt má segja að við séum eldri en áður þegar slíkar ákvarðandi eru teknar og með auknum aldri fylgir minni frjósemi almennt.

Möguleikar á barneignum og stuðningi eru með því besta sem gerist í heiminum á Íslandi, það má þó alltaf gera betur og eru þættir eins og fæðingarorlof, aðgengi að leikskóla, búsetuúrræði og stuðningur í veikindum barna gagnvart atvinnuveitendum mjög stórir þættir í ákvörðunartöku. Víða erlendis eru þjóðir að gera breytingar og reyna að hífa upp frjósemistölur með því að bjóða t.d. ókeyis leikskólapláss, niðurgreiðslur hvers konar á þjónustu og búsetu, sumsstaðar eru greiddar þóknanir fyrir að eiga fleiri börn svo dæmi séu tekin. Í Singapore er lægsta fæðingartíðni í heimi og þar minnir ríkið þegna sína á skyldur sínar innan sem utan svefnherbergis þeirra. Danir kenna ekki bara kynfræðslu til að forðast að eignast börn heldur hvernig skuli eignast þau. Japanska ríkið stendur fyrir stefnumótanálgun fyrir pör og ýtir undir barneignir, meira að segja Kínverjar hafa aflétt banni við eins barns reglu en gengur brösuglega að auka frjósemistölur.

Þessi hluti vandans er fyrst og fremst samfélagslegur og pólitískt úrlausnarefni að eiga við . Hinn læknisfræðilegi veruleiki er sá að eftir því sem konur eldast þá minnka möguleikar þeirra til að eiga börn. Þá koma til sjúkdómar ýmis konar sem hafa orðið algengari og heimfæra má á umhverfi og aðstæður einnig að hluta. Þeir tengjast streitu, álagi og kvíða sem hafa mikil áhrif á frjósemi. Talið er að allt að 10-18% para eigi í vandræðum með barneignir. Eru þar truflanir bæði karla og kvenna sem hafa áhrif. Framleiðsla og egglos kvenna við marga sjúkdóma er skert, hið sama gildir um sæðisframleiðslu karla. Sjúkdómar sem hafa áhrif á hormónaframleiðslu, kynsjúkdómar, lífsstílssjúkdómar eins og sykursýki, offita, áfengis og lyfjanotkun eru allt þættir sem hafa neikvæð áhrif á getu okkar til að eignast börn.

Við þurfum að snúa þessari þróun við og hlúa að ungu fólki sem er reiðubúið og skapa þeim umhverfi og aðstæður. Einstaklingarnir verða einnig að axla sína ábyrgð á þeim fjölmörgu þáttum sem leitt geta til skertrar frjósemi þeirra og tengjast með beinum og óbeinum hætti lifnaðarháttum þeirra. Sameiginlegt átak í þessu mun vonandi skila okkur aftur í fremsta sæti meðal vestrænna þjóða. Fleiri ástarvikur eins og á Bolungarvík, takk

Höfundur greinar