Hvað er nikótín

Nikótín finnst í blöðum tóbaksplöntunar Nicotiana Tobacum og er það eitt öflugasta taugaeitur sem þekkist. Það hefur gríðarlega örvandi verkun á allt taugakerfið þar á meðal heila og mænu. Það hefur beina örvandi verkun á viðtaka taugunga sem leiðir til losunar ýmissa boðefna og hormóna, til dælmis endorfíns, adrenalíns og vaxtarhormóna, ásamt því að líkjast mikilvægu boðefni í taugakerfinu sem nefnist asetýlkólín.

Hvað er Asetýlkólín

Asetýlkólín er efnasamband sem samanstendur af ediksýru og kólíni og gegnir það mikilvægu hlutverki í líkamsstarfseminni, en það er taugaboðefni sem sendir boð á milli taugafrumna í mið- og útttaugakerfinu. Það er að finna í öllum hreyfitaugafrumum þar sem það örvar vöðva til að dragast saman, allt frá hreyfingu meltingarkerfisins og hjartans og upp í hreyfingu augnloka, einnig gegnir það mikilvægu hlutverki til lærdóms og minnis. Í heilanum eru fjölmargir asetýlkólín nemar, sérstaklega í kringum vellíðunarstöð heilans og keppir því nikótínið við asetýlkólín um þessa nema.

Hver eru áhrifin

Nikótín hefur örvandi áhrif á hjartað, einnig hefur það þau áhrif að æðar dragast saman sem gerir það að verkum að blóðþrýstingur og líkamshiti hækkar í kjölfarið. Einnig verður aukning í þarmastarfsemi sem getur leitt til niðurgangs. Efnið, sem er mjög ávanabindandi og afar óstöðugt getur aukið áhættuna á hjarta-, æða-, lungna- og meltingarsjúkdómum, ásamt því að minnka svörun ónæmiskerfisins. Eftir að nikótíni hefur verið neytt umbreytist það í lifrinni þar sem lifrarensím breyta efninu í minna eitrað efni sem svo seytir því út í blóðrásina, þaðan berst það til nýrna sem að lokum seyta efninu í þvagleiðara sem svo losar efnið úr líkamanum. Vegna þess hve ávanabindandi efnið er og hve hratt það brotnar niður í taugamótum, geta komið fram fráhvarfseinkenni einungis fáeinum klukkustundum eftir neyslu þess og í stórum skömmtum getur nikótín leitt til skjálfta og krampa.

Ef nikótíns er neytt seint að kvöldi getur það haft áhrif á gæði svefns og aukið það af leiðandi líkur á svefnröskunum. Svefn er okkur gífurlega mikilvægur eins og mörgum er kunnugt og  ef honum er raskað til lengri tíma getur það til dæmis haft þær afleiðingar að einstaklingar fari að finna fyrir auknum skapsveiflum og átt erfitt með einbeitingu.

Ýtarefni frá Heilsuveru, Heilsuseiglunni og greinar frá PubMed

Höfundur greinar