Svefn er okkur öllum mikilvægur, en að jafnaði eyðir meðalmaðurinn um 1/3 af ævi sinni í svefn. Þessi mikli tími sem fer í svefn er þó ekki til einskis, en á meðan við sofum þá fær líkaminn tækifæri til að hvílast og endurnærast. Þetta aðstoðar við að styrkja ónæmis- og taugakerfi líkamans, ásamt því að þær upplýsingar og sú færni sem viðkomandi aflaði sér yfir daginn er flokkuð og komið fyrir í undirmeðvitund okkar á meðan við sofum. Svefn er í rauninni grunnundirstaðan að góðri heilsu og andlegri og líkamlegri vellíðan.
Svefnþörf getur verið mismunandi eftir einstaklingum, ásamt því að hún er mismunandi eftir aldri. Börn og unglingar eru stöðugt að læra nýja hluti, eru að vaxa og þroskast og því mikilvægt að heili þeirra og líkami fái nægan svefn.
Í töflunni hér að neðan má sjá áætlaða svefnþörf eftir aldri, athugið þó að þessar tölur eru viðmið.
Aldur | Klukkustundir |
0-3 mánaða | 14-17 |
4-11 mánaða | 12-15 |
1-2 ára | 11-14 |
3-5 ára | 10-13 |
6-13 ára | 9-11 |
14-17 ára | 8-10 |
18-65 ára | 7-9 |
65 ára og eldri | 7-8 |
Ónægur svefn getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér svo sem mikla þreytu, pirring, skapsveiflur, einbeitingaskort, skert minni, erfiðleika við að fara á fætur, mikil þörf fyrir að leggja sig og fl. En mikið svefnleysi getur einnig komið fram sem mikil andleg vanlíðan eða sem líkamlegir kvillar.
Til eru ýmsar leiðir til þess að stuðla að bættum svefni og má þar t.d. nefna :
- Að fara á fætur og fara að sofa á sama tíma dag hvern
- Draga úr áreiti í svefnherberginu
– Ekki horfa á sjónvarp, tölvu, síma eða þessháttar uppi í rúmi
– Hafa milda birtu eða dimmt í svefnherberginu - Forðast eða draga úr skjánotkun í amk klukkustund fyrir svefn, finna sér rólegt dundur t.d. lestur
- Forðast drykki sem innihalda koffín amk 4 tímum fyrir svefn
- Dagleg hreyfing getur bætt gæði svefns, varast ber þó mikil átök stuttu fyrir svefn. Göngutúrar, jóga eða önnur hreyfing getur verið hjálpleg
- Heitt bað eða sturta fyrir svefninn getur haft slakandi áhrif.
- Hafa hlýtt í svefnherberginu, en þó með opinn glugga til að viðhalda loftgæðum ef mögulegt er
- Forðast reykingar og neyslu áfengis. Þrátt fyrir að áfengi geti haft slakandi áhrif getur það skert gæði svefns.
Athugið að ef svefnvandamál eru langvarandi, og ekkert að ofan töldum ráðum virðist hjálpa skal leita ráða hjá sínum heimilislækni. Í einstaka tilfellum geta svefnlyf aðstoðað við að rjúfa þann vítahring sem svefnleysi getur verið, en það þarf alltaf að vera gert í samvinnu við fagaðila.
Höfundur greinar
Erla Guðlaug Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar