Hvað er skammdegisþunglyndi?
Skammdegisþunglyndi einkennist fyrst og fremst af atorkuleysi ásamt depurð á veturna. Það byrjar á haustmánuðum og lýkur á vorin. Um er að ræða ástand sem endurtekur sig gjarnan frá ári til árs. Ástandið er beintengt dagsbirtu og þannig líklegra til þess að hafa áhrif á einstaklinga sem búa á norðlægri breiddargráðu en þekkist nánast ekki hjá fólki sem býr við miðbaug. Skammdegisþunglyndi er talið algengara hjá konum en körlum og einkenna byrja yfirleitt ekki fyrr en eftir þrítugt..
Hver er orsök skammdegisþunglyndis?
Orsökin er talin liggja í samspili dægursveiflu svefns og vöku og framleiðslu á melatónini sem er hormón sem framleitt er í heiladingli. Dægursveiflu svefns og vöku er stjórnað af undirstúku í heila og ljós eða birta hefur áhrif á þá stýringu. Einnig hafa fundist tengsl við framleiðslu á serotónin hormóninu þar sem talið er að skert dagsbirta geti dregið úr framleiðslu þess. Þeir sem þjást af þunglyndi mælast gjarnan með lágt eða skerta framleiðslu á serotónini.
Hvaða meðferð er við skammdegisþunglyndi?
Stundum duga almenn ráð svo sem að tryggja að vera með nægt magn af D-vítamíni, tala við nákomna vini eða ættingja, vera félagslega virkur og gæta hófs í neyslu áfengis og óhollrar fæðu.
Ef líðanin er það slæm að þessi ráð duga ekki til þarf að leita til fagaðila. Lyfjameðferð er gjarnan notuð við skammdegisþunglyndi hér á landi en auk þess hefur náðst góður árangur með ljósameðferð bæði ein og sér og með lyfjum. Hugræn atferlismeðferð hjá sálfræðingi hefur einnig gefið góðan árangur, og oftast er verið að nota einhverskonar blöndu af þessum 3 leiðum.
Greinin var uppfærð 13.8.2020 af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar