Þurfum við allt þetta prótein?

Íþróttafólk og fólk í megrun notar oft próteinrík fæðubótarefni í von um að auka vöðvamassa eða til að viðhalda honum. Þessi duft, stykki og drykkir koma oft í stað venjulegra máltíða, en þau eru dýr og virkni þeirra umfram prótein úr mat má draga í efa. Próteingæði fæðubótarefna eru ekki meiri en úr fæðunni, enda er um að ræða venjuleg mjólkur- og sojaprótein sem hafa verið brotin niður í stakar amínósýrur. Þannig próteiín hafa ekki neina kosti umfram prótein beint úr matvælum og tryggja t.d. hvorki hraðara né betra frásog þar sem að líkaminn ræður almennt vel við meltingu próteina. Einangraðar amínósýrur geta hins vegar valdið meltingartruflunum, niðurgangi og magakrampa.

Ef vinsæl próteinstykki eru skoðuð má sjá að þau veita engu meiri prótein en ein brauðsneið með osti og glas af undanrennu eða fjörmjólk. Í próteinstykkinu er að auki sykur sem samsvarar um 8 sykurmolum en brauðmáltíðin inniheldur engan viðbættan sykur.

Nóg prótein í hollum mat

Það er engin ástæða fyrir íþróttafólk sem stundar kraftþjálfun að óttast próteinskort þótt það sleppi fæðubótarefnum. Rannsóknir benda til að próteinþörf við kraftþjálfun sé í mesta lagi um 1,7 g prótein á hvert kíló líkamsþyngdar á dag og það hefur enga kosti að borða umframmagn próteina, þau nýtast ekki í annað en orkuforða. Það er auðvelt að fá þetta prótein með venjulegum, hollum mat. Fólk í megrun þarf heldur ekki að hafa áhyggjur af próteinum. Þegar fita er minnkuð í fæðunni hækkar hlutfall próteina ósjálfrátt og því reynist auðvelt að viðhalda vöðvamassanum með venjulegum mat.

Það eru tvær ástæður fyrir því að fólk ætti að hugsa sig um áður en það ákveður að fá sér próteinfæðubót: Annars vegar þarf líkaminn ekki á öllu þessu próteini að halda og það er dýrt. Hins vegar getur mikil próteinneysla verið skaðleg heilsunni. Kalkútskilnaður með þvagi eykst og það getur haft áhrif á beinþéttnina. Áhrifin á beinin eru enn meiri ef farið er í stífa megrun og saman geta þessir þættir aukið hættuna á beinþynningu.

Að lokum er vert að hafa í huga að próteindrykkir og -stykki innihalda umtalsverða orku, oft á bilinu 200-400 kcal og því mega fæstir við þeim sem viðbót við matinn. Ef þau koma í staðinn fyrir mat dregur úr líkunum á fjölbreyttu fæðuvali og ánægjunni af því að setjast niður til að njóta þessa að borða hollan og góðan mat

Grinin birtist 4.mars  2003

Höfundur greinar